Kristin Dýrfjörð

Thorvaldsen – Ásborg – Sunnuás

Fyrir löngu var ég leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg, í leikskólanum Ásborg. Síðan ber ég hlýhug til leikskólans og reyndar þess sem stóð þar við hliðina Hlíðarenda, þar sem ég hóf minn feril sem leikskólakennari. Nú er búið að sameina Hlíðarenda og Ásborg og heitir hinn nýi skóli Sunnuás. Rétt áður en ég lét af starfi í Ásborg 1997 tók ég saman nokkra punkta um afar merka sögu þessa leikskóla og byggingarinnar sem hann er í. Ég ákvað að endurbirta þessa stuttu frásögn sem er bæði dæmi um merkt framlag kvenna og hluti af sögu leikskóla.

Ásborg

Stiklað á sögu leikskólans

Þar sem nú er leikskólinn Ásborg, var upphaflega rekið sólarhringsheimili eða vöggustofa fyrir börn. Nefndist hún í daglegu tali vöggustofa Thorvaldsen, en Thorvaldsenfélagið lét reisa húsið og færði borginni það síðan að gjöf.

Thorvaldsen er eitt elsta kvenfélag landsins, var það stofnað í Reykjavík 1875, Hugmyndina að því má rekja til þess að á þeim tíma var afhjúpuð stytta af Bertil Thorvaldsen í miðbæ Reykjavíkur. Hópur ungra kvenna fékk það hlutverk að skreyta miðbæinn í tilefni þessa. Í framhaldið ákváðu þær að stofna félag sem nefnt var í höfuðið á Bertil Thorvaldsen og er afmælisdagur hans 19. nóvember sérstakur hátíðisdagur á meðal Thorvaldsenkvenna.

Fljótlega eftir stofnun félagsins vaknaði sú hugmynd hjá konunum að láta gott af sér leiða fyrir æsku landsins, sérstaklega þau börn sem stóðu höllum fæti. Í því skyni var stofnaður sjóður kallaður barnahælissjóður og átti hann að standa að fjármögnun byggingar vöggustofu fyrir börn.

Draumur rætist

barnauppeldissjóður

Liðu nú áratugir áður en þessi draumur Thorvaldsenkvenna rættist. Það var svo á Kvennadaginn 19. júní 1963 að húsið var vígt með pompi og prakt og afhent borginni til eignar og rekstrar. Þegar að húsið var afhent var það fullbúið húsgögnum og öllum þeim nýjustu tækum og tólum sem þá voru.

Ýmislegt á Ásborg nútímans minnir á þessa tíð og þá starfsermi sem húsið var hannað fyrir. Má þá sérstaklega nefna glugga inn á allar deildir í vesturálmu hússins, jafnframt eru skiptiborð á yngri deildum arfur þessa tíma.

Í vaskahúsi má enn sjá forláta þurrkara sem hvert stórþvottahús gæti sæmt sig af og er spurning hvort eigi ekki þegar hann gefur upp öndina heima á Árbæjarsafni. (Það kveiknaði reyndar í þurkaranum fyrir nokkrum árum kd 2014)

Glerið

Fyrrgreindir gluggar gegndu tvennskonar tilgangi, í fyrsta lagi var gott að fylgjast með börnunum gegnum glerið t.d. á nóttunni, en síðari tilgangurinn er e.t.v. fjær okkur nútímafólki. Foreldrar sem af einhverjum ástæðum áttu börn þarna fengu að koma einu sinni í viku og sjá börnin í gegn um glerið.

Einu sinni spurði ég gamlan starfsmann um glerið og af hverju foreldrar hefðu ekki fengið leyfi til að koma nær börnunum og svaraði hún því til að  „þá grétu þau og grétu og það var ekki hægt að hugga þau þegar foreldrarnir fóru, það var bara alltof mikið mál, svo gátu þeir líka borið alls slags pestir í húsið, hvað veit maður” sagði hún.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þessi lokun á foreldra var ekki af mannvonsku heldur voru þetta þau vinnubrögð sem menn héldu að væri sönn og best fyrir barnið í þá daga. Sama viðhorf gætti á sjúkrahúsum, en foreldrar voru taldi óæskilegir á barnadeildirnar. Fljótlega upp úr 1970 fer þetta að breytast en gerðist hægt til að byrja með. Nú þykja mönnum sem þessi vinnubrögð hafi verið ómanneskjuleg.

Börn skírð og börn deyja

Annað sem minnir á sögu hússins er skírnarfontur, kertastjaki, útsaumaður dúkur til að hafa undir og klútur til að þerra barnið eftir skírn. Þessir hlutir eru geymdir í glerskáp í anddyri hússins.

Á Thorvaldsen komu börn jafnvel af fæðingardeildum, voru það þá börn sem höfðu fæðst mikið „vansköpuð eða sjáanlega þroskaheft“, því miður áttu þessi börn ekki öll líf fyrir höndum. Þau voru skírð á vöggustofunni, og þar var og herbergi sem seinna varð tímabundið skrifstofa mín, sem lík barns var látið standa upp í. Nú er það herbergi hluti af listaskála yngri barnanna

Þegar fram liðu stundir þótti Thorvaldsenkonum sem húsið væri fulllítið og var því lagt út í stækkun á því. Á þeim tíma hafði einhverjum sérfræðingnum reiknast til að þörf væri fyrir pláss 136 börn samtímis í vistun. Framkvæmdir við aðra álmu hófust því og var hún fullkláruð og vígð á afmælisdegi Thorvaldsen 19. nóvember 1968.

Dyngjuborg og vöggustofan

Með breyttum tíðaranda, fjölgun leikskóla og nýrri þekkingu, varð mönnum ljóst að þörfin fyrir vöggustofu væri ekki svo mikil. 1973 ákvað því Reykjavíkurborg að breyta eldri hluta hússins í leikskóla eða dagheimili eins og það hét þá og var þar rekinn leikskólinn Dyngjuborg. Fram til 1978 var samhliða rekið í húsinu dagheimili og vöggustofa. En það ár flutti vöggustofan niður á Dalbraut, þar sem fyrir var rekinn sólarhringsvistun fyrir eldri börn og þar sem í dag er rekin Barna og unglingageðdeild.

Dyngjuborg stækkar
Dyngjuborgin fékk nú til ráðstöfunar nýbygginguna sem hafði gegnið undir nafninu, Langisandur í tíð vöggustofunnar. Í millitíðinni hafði tveggja hæða tengibyggingu verið breytt í skóladagheimilið Langholt. Þar er nú deildin Langholt og stjórnunarálma leikskólans.

Svo liðu árin og 1986 -88 var þensla í íslensku þjóðfélagi, á þenslutímum er erfitt í leikskólum, mikil samkeppni er um mannafla og stofnanir sem lítið geta borgað verða illa samkeppnishæfar. Gekk því illa að manna leikskólana. Á Dyngjuborg var ástandið enn nú verra vegna þess að húsið var í raun splittið í miðju út af skóladagheimilinu og þótti ákaflega erfið stjórnunareining. Ákvað því stjórnarnefnd Dagvistar barna eins og hún hét þá að fara að tillögu þáverandi leikskólastjóra og skilja í sundur álmurnar og gera hvora um sig að sjálfstæðum rekstareiningum. Tók sú breyting gildi 1. janúar 1988.
20. júní 1988 tók ég við starfi sem leikskólastjóri og var þar til að ég lét formlega af störfum 1. október 1997. Þann 1. janúar 1988 fékk svo minni einingin nafnið Ásborg. En það nafn völdum við starfsfólkið.

Einsetning grunnskóla – kallaði á beytingar

Þessar þrjár stofnanir voru svo reknar í húsinu þar til að við einsetningu grunnskóla borgarinnar var farið að huga að því að leggja niður skóladagheimilin. Langholt lenti fljótlega undir hnífnum og var ég beðin að taka við húsnæðinu og setja þar upp leikskóladeild.

Samþykkti ég það, en leikskólastjórinn á Dyngjuborginni kom þá að máli við yfirmenn Dagvistar barna og taldi rétt að ef út í breytingar ætti að fara á annað borð yrði Dyngjuborgin líka sameinuð. Var frá því gengið að í húsinu ætti að verða einn leikskóli. Sagðist ég vera tilbúin að taka það verkefni að mér ef, á húsinu yrðu gerð löngu tímabær upplyfting og endurnýjun.

Í dag er Ásborg einn stærsti leikskóli landsins, þar eru 6 deildir og rými fyrir 112 börn samtímis. Þar geta verið börn frá aldrinum 6 mánaða til 6 ára.

Hér hefur verið stiklað á stóru í sögu þessa húss sem geymir leikskólann Ásborg. Önnur saga er saga þeirra sem þar hafa starfað og þeirra verka sem þar hafa verið unnin.

KD fyrrum leikskólastjóri skráði 1997.   

Eftirmáli: Nú er leikskólinn Hliðarendi og Áborg sameinaðir í leikskólann Sunnuás og þar er rými fyrir 147 börn samtímis. Hlíðarendi á sér ekki síður merka sögu og það væri áhugavert ef einhver tæki sig til og skráði hana.

 

Heimasíða Thorvaldsensfélagsins hér

Fésbókarsíða Thorvaldsensfélagsns hér

Tags:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar