Kristin Dýrfjörð

Uppeldisfræðileg skráning og atferlisskráning

Hver er munurinn?

Skáningu sem aðferð er beitt er bæði við atferlisathugun og uppeldisfræðilega skráningu. Hinsvegar skilur aðferðafræðin og tilgangurinn þessar tvær tegundir skráningar í sundur (Grieshaber og Hatch, 2003). Atferlisathugun er þýðing á  child observation en íslenska heitið uppeldisfræðileg skráning er þýðing á pedagogical documentation.

Grieshaber og Hatch (2003) fjalla um almenna þróun skráningar, frá því sem í daglegu tali er nefnt atferlisathugun til uppeldisfræðilegrar skráningar. Í árdaga atferlisathugana við upphaf 20. aldar var markmiðið fyrst og fremst að safna gögnum um börn til að greina þarfir þeirra og þroska. Markmiðið var m.a. að geta staðsett hvern einstakling í ljósi fræða og að geta útbúið námskrá sem hentaði barninu. Áherslan var á kennarann sem safnara upplýsinga. Atferlisathuganir þessa tíma urðu undirstaða nýrrar þekkingar og kenninga um þroska og þarfir barna. Einn helsti forvígismaður þeirra var án efa Bandaríkjamaðurinn G. Stanley Hall. Þeir sem aðhylltust hina svonefndu barnarannsóknarhreyfingu (e. the child study movement) leituðu m.a. til rannsókna hans. Á meðal þeirra sem nýttu sér aðferðafræði hans og þróuðu síðan áfram var Harriet Johnson. Hún setti fram kenningu um þróun byggingarleiks barna, kenningu sem hún byggði á yfirgripsmiklum athugunum og skráningu m.a. í gegnum teikningar af byggingum barna (Hendry, 2008).

Grieshaber og Hatch (2003) telja að atferlisskráning hafi í tímans rás breyst frá því að vera tæki til að þróa starf og þekkingu og í það að vera eftirlitstæki. Þau telja að þróunin sé frá því að nota skráningar til að stuðla að þroska barna og læra um hvernig þau læra og til þess að safna upplýsingum um hvernig hvert og eitt barn og skólar uppfylla stöðluð námsmarkmið og þá fyrir utanaðkomandi aðila. Það er þróun sem Dahlberg og Moss (2005) telja að sé skref í átt að því að breyta leikskólastarfi frá því að vera uppeldisstarf yfir í tæknilega útfærslu. Dahlberg og félagar (2007) hafa líka fjallað um muninn á því sem þau sjá sem megintilgang atferlisathugunar annars vegar og uppeldisfræðilegrar skráningar hins vegar þar sem hið fyrra er nýtt til að meta hvert einstakt barn en hið síðara til skilja og gera sýnilegt hvernig nám á sér stað. Í töflu 1 hef ég tekið saman yfirlit um muninn á atferlisathugun og uppeldisfræðilegri skráningu eins og sá munur birtist mér í hinum greinum ýmissa höfunda en sérstaklega er horft til umfjöllunar Grieshaber og Hatch frá 2003.

Mismunur á atferlisathugun og skráningu

Atferlisathugun

Uppeldisfræðileg skráning

Að sjá hvar barnið er statt þroskalega samkvæmt fyrirframgefnum stöðlum.

Að auka skilning á hvernig og hvar nám á sér stað.

Að sjá hvernig/hvort barnið nær tilsettum námsmarkmiðum.

Að byggja upp þekkingu.

Að móta námskrá sem hæfir aldri og þroska.

Að öðlast skilning á barninu, styrkleika þess og áhugasviðum.

Að móta heildarmynd af barninu, þroska þess og getu.

Öðlast skilning á eigin sjálfi.

Að sinna ábyrgðarskyldu.

Að opna fyrir skilning á margbreytileika mannlífsins, fyrir börn, starfsfólk, foreldra og samfélag.

Grunnur: Vitsmunahyggja

Grunnur: Félagsleg hugsmíðahyggja.

Í kaflanum um námssvið í Aðalnámskrá leikskóla (2012) kemur fram að börn læra í gegnum allt starf leikskólans, úti og inni, að samvinna er nauðsynleg til að nám eigi sér stað, sem og stuðningur og hvatning frá fullorðnum. Uppeldisfræðileg skráning  byggist meðal annars á að auka skilning og vera vakandi fyrir áhuga barna og hvert hann getur leitt. Er það í ágætum takti við það sem fram kemur í Aðalnámskrá leikskólans en þar segir um hlutverk leikskóla:

… að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir því hvað börnin eru að fást við og reyna að átta sig á hvernig þau hugsa og skilja hlutina. Út frá því er þeim kynntur nýr efniviður og hugmyndir. … Ýta þarf undir forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Jafnframt ber að ýta undir vísindalega hugsun og aðstoða börn við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu og styrkja skilning þeirra á hugmyndum og hugtökum (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 30, [leturbreyting mín]).

Það má sjá að sterk samsvörun er á milli þeirra vinnubragða sem hvatt er til í gegn um uppeldisfræðilega skráningu (því sem er líka nefnt uppeldisfræði hlustunar) og þeirra vinnubragða sem lögð eru til í Aðalnámskrá leikskóla.

Heimildir:

Dahlberg, G., Moss, P. og Pence, A . (2007). Beyond quality in early childhood education and care: Languages of evaluation (2. útgáfa.). London: Falmer press.

Dahlberg, G., og Moss, P. (2005). Ethics and politics in early childhood education. London: Routledge Falmer.

Grieshaber, S. og Hatch, J. A. (2003). Child observation and pedagogical documentation as effects of globalisation. Journal of Curriculum Theorizing, 19(1), 89–102.

Hendry, P. M. (2008). Learning from Caroline Pratt. Association for the Advancement of Curriculum Studies, 4, 1–18.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2012). Aðalnámskrá leikskóla. Reykjavík: Höfundur

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar