Uppeldisfræði hlustunnar – hvert barn er kór
Hvert barn er sinn eigin kór, er tilvísun í frægt ljóð um börn og hæfileika þeirra eftir Loris Malaguzzi (1988) en hann segir að Barnið fæðist með hundrað mál en níutíu og níu séu frá því tekin. Í Reggio Emilia er fólk upptekið að því að tengja leikskólastarf menningu, að skólarnir endurspegli þá menningu sem fólk hefur komið sér saman um að skipti máli. Ekki hvaða menningu sem er, heldur þá sem viðkomandi telja vert að halda í, varðveita og þróa. Á Íslandi hefur löngum verið sterk sönghefð – margir hafa verið og eru í kór. Í kór eru margar raddir og mörg hlutverk. Tilvísun mín í að hvert barn sé sinn eigin kór er tilvísun til þessa. Að hvert barn hafi margar raddir, það er hins vegar okkar að hlusta. Þegar hundrað raddir hljóma, er það vissulega kórsöngur.
Ef leikskólakennari trúir því að hvert barn hafi margar raddir, hlýtur hann að þurfa að búa yfir tækjum til að hlusta á þessar raddir, að búa yfir þekkingu til að nota þau, að búa yfir næmni til að sjá og grípa þau tækifæri sem birtast á hverjum degi. Leikskólakennarar þurfa að kunna að hlusta, en líka að ígrunda það sem þeir heyri, sjá og skynja. Þeir verða að geta lesið í og lært af þeim skráningum sem þeir gera. Þurfa að geta notað þær til að dýpka þekkingu sína á aðstæðum og persónuleika einstaka barns. Þeir verða að geta notað skráningar til þess að dýpka nám barna, til að móta umhverfi og námstækifæri.
Til þess að skráningar komi að slíku gangi þarf samvinnu. Til þess þurfa leikskólakennarar að hafa í heiðri að til að þróa starf leikskóla verður að ríkja samvinna þar.
Tími til að hugsa og ígrunda
Þegar Rinaldi var spurð um tengsl starfsins í Reggio Emilia við tímann, sagði hún hann nauðsynlega forsendu skólastarfsins. Að til að geta myndað samband við annað fólk, samband sem skipti máli þyrfti að gefa því tíma. Eitt markmið leikskóla er að hann sé staður þar sem fólk (á öllum aldri) á í innhaldsríkum samskiptum og sambandi hvert við annað. Skólar sem hafa það á dagskrá að styrkja samveru, samskipti og að náið samband myndist á milli þeirra sem þar eru, í slíkum skóla er gefinn tími, tími fyrir börn, tími fyrir kennara, tími fyrir verkefni, tími til að vera vinir og tími til að takast á við árekstra sem móta okkur, tími til að vera öðruvísi (Dahlberg og Moss, 2007).
Tími til að skrá, já eða tímaleysi
Stundum þegar ég ræði við íslenska leikskólakennara um skráningar er tíminn einmitt nefndur sem eitt af því sem stendur í vegi skráninga. Þegar ég heyri það, velti ég því fyrir mér hvort að það geti verið vegna þess hvernig við ráðstöfum honum, hvernig við höfum skilgreint hann eða jafnvel hvernig við látum hann stjórna okkur. „Já en Kristín, það er búið að bæta svo miklu inn í leikskólana, svo mörgum verkefnum sem við eigum að takast á við og þau taka tíma“, er sagt við mig. Ég efa ekki að þetta er satt og rétt, en hinsvegar velti ég fyrir mér ábyrgð okkar sem faghóps á því hvaða verkefni við tökum inn, á hvaða forsendum og með hvaða rökum. Sem dæmi má nefna hin ýmsu aðkeyptu hegðunarkerfi. Spyrja má hvort leikskólakennara sem faghópur hafi ekki alltaf staðið nógu vel með sér sjálfum. Að þeir hafi að hluta gefið öðrum eftir að móta fagstarf leikskólanna.
Börn svipt rétti til einkalífs
Rinaldi hefur verið spurð út í gagnrýni á uppeldisfræðilegu skráningarnar, gagnrýni sem byggir á því, að með því að vera sífellt að skrá allt, sé í raun verið að svipta börn einkalífi, þau séu sífellt undir árvökulum augum sem festi niður allt sem börnin eru að fást við, helst líka hugsanir, langanir og þrár. Rinaldi bendir á að skráningin segi jafn mikið um þann sem skráir og þann sem er skráður. Vegna þess að það hvað við veljum að skrá og hvernig við gerum það og hvernig við túlkum skráningar, segi líka heilmikið um okkur sem fagfólk. Segi til um hvar okkar áherslur eru, hver eru gildi okkar og þá sýn eða afstöðu sem við höfum til barna. Því sé skráning í raun spegill á þann sem skráir (Dalhberg og Moss, 2007). Skráning er of dýrmætt námstæki fyrir alla, barnið, þá sem starfa í leikskólum, foreldra og samfélagið allt til að hægt sé að hafna því að þessum forsendum. En auðvitað ber að fara vel með þær.
Í samfélagi þar sem árangur og eftirlit er næsta daglegt brauð, er spurningin ekki um hvort upplýsingum er safnað, heldur miklu fremur hvernig, í hvaða tilgangi og hvað á að gera við þær. Ég trúi því að megintilgangur skráninga: sé að gefa röddum barna, hljóm, að sýna mátt þeirra og megin. Að tilgangurinn sé að þeir sem vinna með börnum geti kynnst hverju barni, dýpkað þekkingu sína á námi barna og að þeir geti skipulagt tækifæri fyrir öll börn til náms.
Eldhússkúffan
Það er morgunljóst að til að hlusta á raddir barna verða leikskólakennarar að veita sér tíma. Það má vel vera að einhverjir leikskólar verði að leggjast í naflaskoðun og skoða hvernig tímanum er varið í leikskólanum. Verði að máta það sem þeir eru að gera við grundvallarhugmyndir um markmið og tilgang. Verði jafnvel að hreinsa til í uppeldisstarfinu, henda ýmsu út eða breyta. Nýlega var mér sögð ágæt dæmisaga úr kennarastarfinu. Þetta væri eins og skúffan í eldhúsinu sem við setjum allt í, við tökum alltaf reglulega allt upp úr henni og endurröðum svo í hana í þeirri von að koma fleiru fyrir. Við tökum hins vegar sjaldnast allt upp og spyrjum okkur gagnrýrnið, þarf þessi hlutur að vera þarna, er ekki komin tími á að senda hann í endurvinnsluna já eða jafnvel ruslið?
KD
Sorry, the comment form is closed at this time.