Kristin Dýrfjörð

Eru börnin strengjabrúðustjórnendur?

 

Mynd frá Gyðu Sigvaldadóttur

Mynd frá Gyðu Sigvaldadóttur

Er munur á að hlusta á börn eða elta hugmyndir barna?  Áður en ég kem að því vil ég fá að deila með lítilli frásögn með lesandanum, sumir geta meira að segja speglað sig í henni.

Vorið 2008 hlustaði ég á kynningu á þróunarverkefni í leikskóla. Verkefnið var hluti af samstarfsverkefni margra leikskóla til nokkurra ára og því tengt rannsóknarverkefni. Frá upphafi var ljóst að hver skóli mótaði verkefnið eftir eigin þörfum og barnahópsins. Meðal annars til að tryggja fjölbreytileika og eignarhald viðkomandi á verkinu, á náminu og þeim námstækiærum sem þar sköpuðust. Í þessum tiltekna leikskóla sem ég ætla að nefna Ljósaland, gerðist það hinsvegar að börnin tóku völdin.

Við sem þekkjum til sögunnar um Uppreisnina á barnaheimilinu, kom ekkert annað í hug þegar við hlustuðum á leikskólakennara lýsa því sem gerðist. Leikskólarnir höfðu sameiginlega ákveðið að vinna að verkefni þar sem kanna átti eiginleika og möguleika vatns. Það sem gerðist á Ljósalandi er að í upphafi höfðu börnin áhuga á verkinu og unnu kappsamlega og af áhuga að því. Á einhverjum tímapunkti í ferlinu virðast leikskólakennararnir hafa misst sjónar á markmiðinu og látið stjórn verkefnisins alfarið í hendur barnanna.

Að verða þjónn en ekki samverkamaður 

Börnin voru á þeim tíma afar upptekin af tölvuleikjum og teiknimyndum í sjónvarpi. Til að nýta áhuga barnanna settu leikskólakennararnir fram hugmynd við börnin að búa til spil sem tengdist vatninu. Vinnan fór á fullt og úr varð merkilegt spil sem hægt væri að nýta til að greina áhrif dægurmenningar á leik og hugmyndir barna, en vatnið, það varð að algjöru aukaatriði. Eða eins og einn þeirra leikskólakennara sem hlustaði á kynninguna sagði, „börnin af gæsku sinni gagnvart leikskólakennurunum ákváðu að leyfa vatninu að fljóta með í smá hlutverki“. Þetta var sem fyrr segir áhugavert spil sem birti vel hugarheim barnanna, en hafði ekkert með upphafleg markmið að gera, það tengdist ekkert því þróunarverkefni sem þessir leikskólakennarar höfðu skuldbundið sig til þátttöku.

En hvað átti sér stað? Það er ljóst að á Ljósalandi höfðu börnin ekki áhuga á vatninu og það sem meira er, það virðist sem kennararnir hafi ekki haft burði, vilja eða þekkingu til að fylgja verkinu eftir. Þeir virðast ekki hafa haft burði til að byggja upp eða opna fyrir áhuga barnanna á viðfangsefninu. Kennararnir voru líka mjög uppteknir af því að hlusta á börnin, en hlustun þeirra virðist aðallega hafa fólgist í því að fylgja börnum eftir og verða þjónar þeirra frekar en samverkafólk. Einhver gæti spurt; en er þetta ekki í anda þess að hlusta á börn og fylgja hugmyndum þeirra eftir? Voru þessir leikskólakennarar ekki einmitt að standa sig?

Menntandi reynsla

Ég velti fyrir mér hugmyndum Dewey um það sem hann velur að kalla menntandi reynslu. Hann taldi ekki alla reynslu nauðsynlega þroskandi eða menntandi. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[1] Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna. Ef horft er til dæmisins hér að framan er hægt að velta fyrir sér hvort að með því að elta hugmyndir barna sé í raun verið að byggja upp nauðsynlega reynslu og stuðla að því að börn þroski hugsun sína. Eða flokkast dæmið að hluta undir það sem Dewey kallaði fánýtar athafnir? Dewey var annt um aga, ekki ytri aga heldur þann aga sem fylgir því að vinna vel og vera djúpt sokkinn í verk sín. En til að tryggja slíkan aga veðrur kennari líka að kunna þá list að bæði leiða og vera leiddur. Reyndar held ég að verkefnið flokkist ekki undir fánýtar athafnir en það flokkaðist heldur ekki undir þau markmið sem fólk hafði sett sér.

Í rannsókn sem ég gerði á meðal íslenskra leikskólakennara spurði ég hvernig þeir færu að því að fá börn til að gera eitthvað sem þau hefðu lítinn eða engan áhuga á. Einn leikskólakennari svaraði:

… ef það er eitthvað sem við viljum að þau endilega geri … þá bara gerir maður það spennandi. Það er ekki neitt sem við gerum hérna inni sem er ekki spennandi að gera. … þetta verður bara allt spennandi og við gerum okkur svo spenntar fyrir því líka. Maður getur ekki tekið eitthvað upp sem maður er ekki spenntur fyrir og þegar að við erum orðnar spenntar fyrir því og smitum þennan spenning yfir til barnanna að þá er þetta ekkert mál.

Einhvernvegin náðu leikskólakennararnir á Ljósalandi ekki að gera verkefnið spennandi, hvorki fyrir sjálfa sig eða börnin. Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að þeir voru of uppteknir af því að hlusta á börnin. Of uppteknir að því að fylgja áhuga barnanna eftir. Kennararnir urðu í raun þjónar barnanna og hugmynda þeirra, en ekki samverkafólk. Og á því er mikill munur.

Börnin brúðustjórnendur

Það styður ekki við lýðræði að börn upplifi sig í hlutverki brúðustjórnandans og starfsfólkið sem strengjabrúður. Það styður ekki við lýðræði, að leikskólastarfinu sé hagað á þann hátt að sópa öllum hindrunum úr vegi barna. Svo vitnað sé til Moss, verða leikskólakennara að búa yfir og getað beitt þekkingu á lýðræði til að ákveða starfshætti. Það þarf fagmennsku og þekkingu til að skoða hvaða starfsaðferðir samræmast lýðræðislegum aðferðum og það þarf stundum hugrekki til fylgja þeim. Á tímum skyndilausna í leikskólauppeldi, lausna sem byggja á skilvirkni og árangri, sem oft byggja á ytri stjórn og ytri aga getur þurft sterk bein til að standa með hugmyndum sínum og sannfæringu.

Uppeldisfræði hlustunnar

Eins og áður er komið fram er það að hlusta á börn talið eitt aðalsmerki starfsins í Reggio Emilia, jafnvel svo að sjálf segir leikskólafólkið aðspurt að í Reggio Emilia ríki uppeldisfræði hlustunnar. Með mér á kynningunni á starfinu á Ljósalandi var m.a. Amelia Gambetti uppeldisráðgjafi frá Reggio Emilia. Eftir kynninguna velti hún því upp hvernig fólk skilgreindi það, að hlusta á börn. Hún sagði frá því, að þegar hún var ungur leikskólakennari hafi hún skilið það sem svo að hún ætti að elta allar hugmyndir barnanna, fylgja hverri þeirra og reyna að gera hvert verkefni, hverja hugmynd mögulega. Einn daginn hafi hún svo áttað sig á því að börn eru ótrúlega klár, og þau hafi gert sér grein fyrir þessari trú hennar. Börnin hafi leitt hana að hverri hindruninni af fætur annarri og svo tekið U-beygju og farið í næsta verkefni og svo koll af kolli. Hún hafi komið heim dauðþreytt eftir hlaupin. En hún hafi líka farið að hugsa; hvað merkir að hlusta á börn? Í hverju felst ábyrgð mín í hlustuninni og hver ber ábyrgð á að leiða og móta uppeldisstarfið? Hvernig fer þetta saman, að hlusta og að leiða? Hennar niðurstaða er að hlustun merki ekki einræði barna, heldur samvinnu barna og starfsfólks. Að börn og starfsfólk þurfi stundum að koma sér saman en leikskólakennarinn geti aldrei vikið sér undan ábyrgð uppeldisstarfsins.

Samverkafólk

Rinaldi (2006) orðaði þetta svo að í leikskólanum stjórnaði starfsfólkið börnunum, en börnin líka starfsfólkinu, og þau þyrftu þess, vegna þess að þannig lærðu börn um stjórn, þau þyrftu að læra að taka vald af valdi, hún segir að vandmál leikskólanna sé ekki að börnin stjórni heldur að starfsfólkið hafi mun meira vald en börnin og hvernig það nýtir vald sitt. Það má spyrja hvort að leikskólakennararnir á Ljósalandi hafi ekki í raun brugðist þeirri ábyrgð sem þeim var falin? Að með því að beita valdi sínu á þann hátt sem þeir gerðu hafi þeir sýnt tiltekið ábyrgðarleysi. Sé enn litið til Dewey þá er hlutverk kennarans aðallega tvíþætt:  Annarsvegar á hann að leiða barnið í gegnum flóknar götur lífsins og gefa því tækifæri til að læra á sinn eigin náttúrulega hátt, það er með því að takast á við að leysa mismunandi viðfangsefni. En kennaranum ber líka að hjálpa barninu að takast á við það sem er að gerast í daglegu lífi þeirra og sem hjálpar þeim á að takast á við það sem framtíði ber í skauti sér, framtíð sem engin getur séð fyrir. Þetta gerir hann varla með því að setja ábyrgðina á framkvæmd starfsins í hendur barnanna.

______

Þessi færsla er byggð á  fyrirlestri sem ég (KD) flutti  á ráðstefnu Reykjavíkurborgar og RannUng í Borgarleikhúsinu þann 18 apríl 2008.  Fyrirlesturinn hét: Hvert barn er sinn eigin kór.



[1] Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla

 

Tags: , , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar