Kristin Dýrfjörð

Erfiðu samtölin

Kristín Dýrfjörð skrifar

Í leikskólanum eru sum samtöl við foreldra erfiðari en önnur. Ástæður eru af ýmsum toga, það getur verið vegna þess að leikskólakennari telur að barni líði ekki vel, eitthvað sé í gangi í barnahópnum, áhyggjur af þroska barns og svo framvegis. Það getur líka verið að foreldrar óski eftir samtali. Stundum eru það minni háttar mál sem fólki finnst erfitt að ræða, en stundum eru samtölin þess eðlis að þau geta valdið breytingum á lífi barna. Hvort sem ástæða er talin minniháttar eða meiriháttar þarf að hugsa vel um framkvæmd slíkra samtala.

Stór mál og minni mál

Í mörgum leikskólum eru teymi sem hafa umsjón með því sem snýr að sérkennslu og velferð barna. Þar er í flestum tilfellum byrjunarreitur ef um stærri mál er að ræða. Dæmi gætu verið alvarleg þroskafrávik, barnaverndarmál, grunur um vanrækslu og ofbeldi gangvart barni. Í leikskólum eru vonandi til verkferlar ef grunur um slíkt kemur upp. Hins vegar er gott að minna á að ef grunur er um að ekki sé allt eins og það á að vera hjá barni þá á ekki að bíða of lengi með að gera eitthvað í málinu. Það ætti að vera forgangsmál að byrja að safna upplýsingum. Setja niður áhyggjur og hversvega þær eru til staðar.

Í flestum tilfellum eru vandamálin smærri, áhyggjur yfir að barn hafi ekki náð að mynda tiltekin hljóð, barn sem á erfitt í hvíld, barn sem er bitið, eða bítur, barn sem á erfitt með vinatengsl, einelti í barnahópnum, barn sem kýs að borða ekki í leikskólanum, barn sem aldrei er með aukaföt eða útifatnað. Hvort sem vandinn er risastór eða minni, getur hann valdið kvíða og vanlíðan hjá foreldri. Þess vegna skiptir máli að bregðast við fyrr en seinna og ef foreldri hefur verið boðað í samtal, draga tímasetningu ekki á langinn.

Hér er ekki verið að fjalla um samtöl (fundi) þar sem aðilar utan leikskólans taka þátt í, heldur það samtal sem er oft upphaf af slíku ferli. Hér er líka átt við samtöl þar fjallað er um minni erfiðleika og vandamál sem leikskólinn/deildarstjórinn getur tekið á, innan sinna raða og með hjálp foreldra.

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga

Frá upphafi er mikilvægt að hafa það á hreinu hvers vegna óskað er eftir samtali og að vera vel undir samtal búin. Auðvitað á alltaf að undirbúa samtöl vel en ef vandamálið er líklegt til að valda foreldrum vanlíðan eða kalla fram varnarviðbrögð, þarf að vera enn betur undirbúin.

Það er hollt að muna að foreldrar eru sérfræðingar í sínu barni. Barnið er í leikskólanum í 3-5 ár, leikskólinn ber ábyrgð þann tíma, en barnið er alla ævina, barn foreldra sinna. Fyrir suma er þetta ef til vill viðtalið sem breytti lífi þeirra og barnsins um alla framtíð. Þarna byrjar kannski vegferð foreldra til varnar barninu og krafan um rétt barnsins til þjónustu og viðurkenningar.

Varnarhættir

Gott samstarf við foreldra frá því barnið byrjar í leikskólanum er undirstaða trausts og verður til þess að auðveldara er að ræða mál og áhyggjur sem upp koma. Það er erfiðara að vinna með fólki sem er tortryggið og í vörn en þeim sem viðkomandi treystir og veit að er að vinna að velferð barnsins. Sama á auðvitað við leikskólakennara ef foreldrar upplifa að þeir séu í vörn eiga foreldrar líka erfiðara með að treysta þeim og eiga samstarf.

Í samtölum getur allt mögulegt komið upp, sumt fyrirséð, annað óvænt. En hvernig leikskólakennari bregst við skiptir sköpum. Sem dæmi ef leikskólakennari upplifir mikla vörn eða „árásir“ frá foreldrum þarf hann að vera undirbúinn og hugsa um eigin viðbrögð. Hann þarf að halda ró sinni og ekki að bregðast við af offorsi eða vanstillingu. Ef foreldrar mæta slíkum viðbrögðum er líklegt að þeir bregðist öfugir við og fari í enn meiri vörn. Slíkt gagnast engum.

Leikskólakennarinn verða að muna að þó að góð og traust samskipti við foreldra skipti miklu þá eru þau ekki aðalmarkmiðið heldur velferð barnsins og að samvinna skilar þar miklu.

Foreldrar koma stundum með óskir og kröfur jafnvel ásakanir sem leikskólakennurum finnst ekki eiga rétt á sér.  Sem getur kallað fram varnaviðbrögð hjá leikskólakennurum. En í stað þess að bakka í vörn, er hlustun gott tæki. Það þarf ekki að taka undir allt, en það þarf að segja foreldrum að „þú“ heyrir hvað þeir eru að segja og ætlir að skoða málið. Stundum þurfa foreldrar næði og stað til að fá að blása og í einhverjum tilfellum eru málið þar með afgreitt.

Foreldrar kvarta stundum yfir því að þeir mæti í samtal og þá sé upptalning á hversu ómögulegt barnið er. einu sinni heyrði ég í foreldri sem spurði kennara: „Hefurðu ekkert jákvætt að segja um barnið mitt?“

Það krefst mikils af leikskólakennaranum að geta mætt því sem kemur upp í samtölunum.  Að geta það og unnið áfram er merki um fagmennsku.

Valdaójafnvægi og jafningastuðningur

Ef að leikskólakennarann grunar að ekki sé allt eins og það á að vera og að samtalið verði erfitt þá er sérlega mikilvægt að ræða við samkennara sína og undir búa sig vel andlega og faglega. Það getur verið ráð að hafa sérkennslustjóra/aðstoðarleikskólastjóra með í slík samtöl.

Það þarf að huga að valdaójafnvægi milli leikskólakennara og foreldra. Það ætti að vera hluti af vinnuferlum að bjóða foreldrum að hafa með sér 3ja aðila í sum samtöl. Það er auðveldra að bjóða foreldrum slíkt þegar hægt er að bæta við, „það er hluti af vinnuferlum okkar að bjóða foreldrum að hafa með sér einhvern sem viðkomandi treystir“. Þetta er ef til enn mikilvægara þegar foreldri tilheyrir valdalitlum hópum samfélagsins.

Til að tryggja áframhaldandi samvinnu er gott að hafa í huga  að komi það fram í viðtali að ætlunin sé að vinna eftir plani, gera áætlun um viðbrögð. Þá er mikilvægt að upplýsa foreldrana um allar breytingar jafnt og þær verða svo foreldrarnir sjái og finni að upplýsingar þeirra og samvinna skiptir máli. 

Það er mikilvægt í hinum daglegu samskiptum að láta foreldrana vita hvernig gengur og láta vita af bæði áhyggjum og segja frá sigrum.  

Það er og mikilvægt að muna að flestir foreldrar vilja börnunum sínum aðeins það besta og gera sitt besta til að svo verði, líka þegar leikskólanum finnst það ekki hafa tekist vel.  

 Nokkur hagnýt atriði um samtalið sjálft

  • Hvernig samtalið byrjar skiptir máli.
  • Hlýlegt og notalegt umhverfi hjálpar og nauðsynlegt að tryggja að ekki verði truflun á meðan samtali stendur.
  • Í hvaða tóntegund er talað.
  • Að stólar séu í söm hæð. Skilaboð sem eru send með líkamanum. Vera afslappaður, hollning skiptir máli, hvernig situr leikskólakennarinn, hvar eru hendur sem dæmi.
  • Margir eru taugaóstyrkir í upphafi samtals þeir vita ekki á hverju er von hrósi eða jafnvel einhverju erfiðu.  
  • Því er mikilvægt að nota fyrstu mínúturnar í samtali til að byggja andrúmsloftið.  
  • Muna að tala út frá styrkleikum barns og hvernig ætlunin er að byggja á þeim.
  • Nota ég-við, „við höfum tekið eftir að, við sjáum, við erum að velta fyrir okkur“.
  • Bandamenn barnsins – Minna á að þið eruð saman í liði, viljið barninu það besta.
  • Ræða hvað það skiptir miklu að grípa strax inn í aðstæður. (Snemmtæk íhlutun).
  • Hvetja foreldra til að spyrja ef eitthvað er óljóst, styðja við opið samtal. Jafnvel staðfesta það sem áður var sagt, „eins og ég sagði áðan, þá…“ til að tryggja að upplýsingar komist örugglega til skila.
  • Setja erfiðleikana/umfjöllunarefnið strax á dagskrá, ekki draga á langinn.
  • Það er hlutverk leikskólakennarans að samtalið byrji þannig að báðir aðilar fái það sem til er ætlast út úr því. 
  • Setja fram áætlun um næstu skref. Gefa foreldrum tækifæri á að hafa áhrif.
  • Loka samtali með því að draga saman það helsta og næstu skref, spyrja foreldra hvort þeir vilja bæta einhverju við.
  • Í einhverjum tilfellum gæti verið gott að vera með tilbúið fræðsluefni fyrir foreldra.
  • Ramminn utan um samtalið í upphafi er mikilvægur hann leiðir til öryggis og gefur fólki tækifæri til að einbeita sér og að því sem fyrir liggur. 


Umfjöllun um foreldrasamtöl hluti 1 og hluti 2

Nokkrar eldri færslur um foreldrasamstarf:

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar