Kristin Dýrfjörð

Fullorðin má ekki snerta mig

Vöggustofan Thorvaldsen 1963 Vegna hræðslu við að verða lögsóttir hafa margir leikskólar í Bretlandi ákveðið að setja sér stefnu sem byggist á því að snerta börn ekki. Þetta felur í sér að börn mega ekki sitja í fanginu á starfsfólki, það má ekki kyssa á bágt eða jafnvel greiða börnum. Fólk áttar sig á að sum snerting er óhjákvæmileg eins og þegar verið er að skipta á börnum en allri snertingu skal haldið í lágmarki. Hræðslan við lögsóknir virðist vera sett framar þekkingu á geðtengslum og mikilvægi snertingar fyrir börn. Hér í gamla daga (eins og fram kemur í fléttuþætti Viðars Eggertssonar, „Eins og dýr í búri“), var það hluti af uppeldsstefnu og verklagi sólahringsstofnana að snerta ekki börn að „óþörfu“. Gengið var út frá því að börn sem eru södd og þurr eigi að vera sjálfum sér nóg. Það tók mörg ár að losa ekki bara okkur heldur stofnanir um allan heim undan þessum fáránlegum vinnubrögðum.

Ég man eftir áhrifaríkri bók sem til var í Fósturskólanum og hét „Om du inte rör mig så dör jag“ eftir Ylvu Ellenby og fjallaði um mikilvægi snertingar á munaðarleysingjaheimilum, að þau börn sem ekki fengu mannlega snertingu vesluðust upp á meðan þau börn sem voru snert döfnuðu. Persónuleg fannst mér nafnið eitt nóg til að vekja til umhugsunar. Nú virðist fara að glitta í þessi fáránlegu sjónarmið aftur, að vísu vegna annarra hvata en áður, en fyrir þau börn sem fyrir verða skiptir það sennilega ekki máli. Hvatir sem að baki nú eru hræðsla og tortryggni, að fólk sé í grunninn vont og ætli sér að gera börnum illt. Að löngun þeirra til að starfa með börnum sé byggð á sjúkleika.

Til að fela rökin um mögulegt  kynferðislegt ofbeldi eru annarskonar rök dregin fram  t.a.m.  er bent á að að hægt sé að „kæfa“ börnin með knúsi og að sumt starfsfólk misnoti nánd til að stýra börnum og stjórna. Auðvitað eru tvær eða jafnvel fleiri hliðar á öllum málum en í leikskólum þar sem starfar fagfólk skulum við vona að fagmennskan nái líka til þeirra aðferða sem nýttar eru til að „stjórna og aga“.

Í Bretlandi er fólk sem bendir á mikilvægi þess að börn séu einmitt knúsuð og fái faðmlag, þar kemur fram að leið til að verja börn gegn illum áhrifum hækkaðs magns kortisóls (streituhormón sem getur ef það er í miklu magni og langvarandi í líkama barna haft áhrif á m.a. námsgetu þeirra), þess vegna sé það réttur barna að fá þau finni til líkamlegrar nándar og finni hlýju í umhverfinu. Leikskóli þar sem farið er með börn eins og framandlegar dúkkur og/eða tæki sé ef eitthvað er vondur og skaðlegur staður fyrir börn.

Á Íslandi höfum við líka lagt áherslu á að fjölga körlum í leikskólum. Viðhorf að allir séu mögulegir afbrotamenn (en samt sérstaklega karlar) er ekki til þess fallið að laða unga karla eða konur að þessu mikilvæga starfi. Það er miklu tryggara að vinna með peninga eða skrifa forrit í tölvu en að vera í starfi þar sem þú ert sífellt álitin möguleg brotamanneskja.

Einu sinni trúði ég því einlæglega að svona vitleysur frá útlöndum næðu ekki til okkar, ég er löngu hætt að trúa því, veit að við étum upp eftir öðrum ekki bara það góða heldur líka það sem er alveg galið. Við sem samfélag og við sem komum að leikskólum með einum eða öðrum hætti hljótum að þurfa að ræða saman um hvert við viljum stefna og hvernig við ætlum að tækla þessa umræðu þegar aldan skellur á okkur.

Ég held að grunnur umræðunnar sé að leikskólakennarar þurfa að skilgreina hvernig sýn þeirra til barna er. Ég tel að það ráði miklu um það hvernig þeir komi fram og sinni starfi sínu og hafi áhrif á traust samfélagsins til þeirra.

Auðvitað er mitt hlutverk að vernda en það er líka að trúa á afl og megin barna. Að börn séu gerendur í eigin lífi. Að til að þau átti sig á því verða þau að vera í umhverfi sem byggir á trausti á alla bóga.

 

Tengill á breska grein sem varð kveikja þessarar færslu

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar