Kristin Dýrfjörð

Lýðræði með eins til þriggja ára – samverustundir

Mynd frá Gyðu Sigvaldadóttur

Í nýjasta Bagspejlet er m.a. fjallað um rannsókn á samverustundum með yngstu börnunum, möguleg áhrif þeirra og þátttöku. Rannsóknina gerðu þær Eide, OS og Samuelsson (2012) og hún tekur til mikilvægi þess að leikskólakennarinn þori og geti svolítið leikið af fingrum fram, þori að grípa boltann frá börnunum og gefa hann aftur. Í umfjölluninni er mikið fjallað um það að samvera taki bæði til þess einstaklingslega og þess að vera í hóp. Að það sé sífellt sikk sakk þar á milli. Þetta krefst þess að leikskólakennarar lesi hópinn vel og séu tilbúnir að sveigja og beygja í samræmi við barnahópinn, þarfir hans en líka gæta að eigin markmiðum. Greinin fjallar bæði um rannsóknina en líka hvernig leikskóli í Danmörku hefur valið að nýta það sem þar kemur fram til að þróa sínar samverustundir.

Leikskólakennarinn – hlutverk hans

Þegar barna er tveggja getur nefnilega verið erfitt að bíða og sitja kyrr. Þá þarf leikskólakennarinn að geta haft auga á eigin markmiðum og líðan einstakra barna. Geta brotið upp samveruna, gefið frá sér boltann og gripið aftur, til einstaklinga og til hópsins.

Til að geta þetta verður hver leikskólakennari að búa yfir og kunna, söngva, leiki og ævintýr sem heilla litlar manneskjur og að kunna að beita þessari þekkingu sinni. Að þegar leikskólakennarar og börn setjast saman í samveru verður leikskólakennarinn að vera búin að móta það sem hann ætlar að gera og vera hæfur til að fylgja því eftir. Þó svo að börnin hafi viss völd í samverunni er mikilvægt að átta sig á því að það hafa leikskólakennararnir líka. Með lýðræðislegri samveru er ekki verið að segja að börnin eigi að ráða einu og öllu – leikskólakennarinn er hluti og á að vera mikilvægur hluti hópsins. Hann ber nefnilega ábyrgð á upplifun allra sem þátt taka.

Lítil börn geta tekið ákvarðanir

Í greininni er spurt hvort það sé ekki svolítið skrítið að ræða um að lítil börn hafi áhrif á ákvarðanir og séu lýðræðislegir borgarar, Brit Eide, einn rannsakandinn segir svo ekki vera, börn séu manneskjur sem geti og vilji hafa áhrif á líf sitt frá unga aldri og við eigum að gæta þess að draga ekki úr mætti þeirra og trú á getu. Jafnvel börn sem ekki hafa mikinn orðaforða geta vel tjáð sig – ef einhver á staðnum er tilbúin að hlusta. Það krefst þekkingar og reynslu hjá leikskólakennurum að hlusta á og túlka hin óyrtu skilaboð. Að börn upplifi sem sem gerendur skiptir máli fyrir framtíð lýðræðis í samfélaginu-  Grunnurinn er lagður í leikskólanum.

Skapalón

Mér fannst svolítið skemmtilegt að þau nota orðið skapalón um umgjörð samverustunda – sérstaklega þar sem það orð hefur sterka sögulega tilvísun fyrir okkur leikskólakennara. En sennilega falla íslenskar samverustundir í svipað skapalón – við höfum flest(ar) mynd af því hvernig góð og slæm samverustund fer fram.

Ráð Brit Eide um samverustundir fyrir yngstu börnin:

Skapaðu skýran ramma utan um samveruna. Gættu þess að allir geti horft í augun á hver öðrum. Börn og fullorðnir. Hafðu samveruna ekki of fjölmenna.

Settu þér markmið – kenna söng, ýta undir samveru og samhygð, samstarf eða væntumþykju, eða að börn upplifi að þau séu raunverulegir þátttakendur/gerendur með rétt til að hafa áhrif  … vertu með þín markmið á hreinu.

Byggðu þinn banka. Byggðu þér upp banka leikja, söngva og ævintýra. Leyfðu þér líka að gefa börnunum færi á að koma með uppástungur.

Vertu sveigjanleg – þú verður að þora að fara út af handritinu, lesa hópinn og nýta tækifærin sem gefast.

Gefðu börnunum tækifæri – til að taka þátt í umræðum um lausnir, koma með lausnir og uppástungur um það sem á að gera.

 Það sem hugsaði eftir lesturinn

Þegar ég var ungur leikskólakennari á tveggja ára deild ræddum við mikið um samveruna, það var t.d. samverustund á meðan að við skiptum á bleium fyrir hádegismatinn (sem var rétt um 11),  við ræddum hvort það væri t.d. virðing fyrir barni að kalla það fram í miðri sögu til að fara á kopp, fá bleiu og hátta fyrir hvíldina. Barninu væri kippt út úr aðstæðum án virðingar við það og t.d. áhuga þess á því sem var að gerast í samverunni og skellt inn í atburðarrásina aftur án þess að vita hvað hefði verið í gangi. Við ákváðum að leysa það með því að breyta, ákváðum t.d. ekki að lesa sögur í þessari samveru, byggja meira á söng og samræðu. Sama vandamál var og er væntanlega rætt víða í leikskólum landsins. Við ákváðum að sögulestur færi betur í seinni samveru dagsins sem var fyrir kaffið. Ég man hvað ég var stolt þegar ég gat sagt og lesið fleira en eina sögu í sömu samveru og börnin héldust við og höfðu ekki tapað áhuga eða þræði. En auðvitað beitti ég þekkingu minni og reynslu. Notaði mikið að hreyfingum (leikænni tjáningu sem var einmitt hluti af námi mínu), fékk börnin með í sögurnar, þau endurtóku, svöruðu spurningum og notuðu líkamann.

Hins vegar man ég líka eftir sögustundum þar sem enginn mátti hreyfa sig, ekki að pota í næsta og svo framvegis. Þar sem aðalorkan fer í að börnin hafi hendur og fætur hjá sér. Það er með samverustundir eins og annað við verðum að þora að skoða og opna umræðuna um hvað verið er að gera.

Nýlega ræddi ég við leikskólakennara sem sagði mér að í hennar leikskóla sé það álitið jafnréttismál að allir gangi í öll verk. Það merkir að hún er kannski að sópa fataklefann á meðan að 19 ára unglingurinn er með samveru. Henni finnst þetta óþolandi vinnubrögð og menntun hennar og sérfræði sé illa nýtt. Undir þetta tek ég, ég koma einu sinni að ungum starfsmanni velja bók fyrir samveru. Hún vildi skemmtilega bók fyrir 3-4 ára, ég benti á Einar Áskel, neiii sagði hún ég er svona meira að hugsa um prinssessubók. Henni fannst nefnilega sjálfri Einar Áskell, uppáhald margra barna, svo leiðinlegur

Hvar liggur ábyrgð leikskólakennara sem sérfræðinga?

____________________________________

Rikke  Wettenorff,  (2014). Er tiden løbet fra samling? Bagspejlet . bls 6-12

Virkilega áhugaverð grein sem byggist á rannsókn Eide, B.J., Os, E. &. Samuelsson, I.P. (2012): Små barns med­ virkning i samlingsstunder. Nordisk barnehageforskning 5(4). 1-21.

http://www.eva.dk/dagtilbud/bakspejlet/magasiner/bakspejlet-forskning-og-ny-viden-om-dagtilbud-argang-2014

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar