Kristin Dýrfjörð

Öryggislaus börn – tilfinningalega vanrækt börn

OLYMPUS DIGITAL CAMERAÍ Bretlandi var nýlega fjallað um rannsóknir á tengslum ungra barna og foreldra. Helstu niðurstöður eru í þá átt að eitthvað mikið sé að í tenglamyndun um 40% barna og foreldra þeirra, tengslin séu ekki eins sterkt og þau ættu að vera.  ÞAð er forvitnilegt að vita hvernig þessu er farið hér? Tengslaskortur er aðallega áhyggjuefni vegna þess þeirra áhrifa sem tengslaskerðing (óörugg tengsl) getur haft á framtíð barna. Talið er að börn sem lifa við tengslaskort séu líklegri til að eiga við bæði félagsleg-  og námslega erfiðleika seinna. Samkvæmt  rannsóknum  eru börn sem búa við tengslaskerðingar líklegri til að vera ofvirk, eiga í ýmsum hegðunarerfiðleikum og seinna yfirgefa skóla á miðri leið.  Samkvæmt sömu grein getur tengslaskerðing átt sér stað hjá öllum þjóðfélagshópum, en er líklegri ef fleiri en eitt vandamál hrjá fjölskylduna, þá er líkurnar allt að 2/3 á tengslaskerðingum, drengir eru líka útsettari en stúlkur fyrir áhrifum skerðinga.

Viðvörunarbjöllur

Í Bretlandi er rætt um þessar niðurstöður sem viðvörunarbjöllur,  það þarf að grípa inn í og hjálpa foreldrum ekki seinna en strax. Leikskólar og heilsugæsla eru í lykilhlutverki að upplýsa foreldra um hvernig hægt er að mynda þessi tengsl og um mikilvægi þeirra. Leikskólakennarar eru sérfræðingar í uppeldi og umönnun barna og ættu sérstaklega að taka málið í sínar hendur. Með t.d. því að sýna foreldrum hvernig unnið er með tengsl í gegn um daglegar athafnir og leik.

Óörugg tengsl –  örugg tengsl

Samkvæmt rannsókninni er hægt að tengja saman tengslaskerðingar við lélegri málþroska, félagsþroska og að örugg börn eru líklegri til að búa yfir meiri seiglu, vera ónæmari fyrir óstöðuleika í fjölskyldum sem og streitu foreldra og þunglyndi.

Drengir sem alast upp við fátækt en ólíklegri til að eiga við hegðunarvandmál  ef þeir hafa myndað örugg tengsl við foreldra í frumbernsku.  Annar áhættuþáttur tengslaskorts er ofþyngd. Af framansögðu er ljóst að foreldrar og góð tengsl við þau eru frumatriði. Að börn og foreldrar séu tengd tilfinningalega skiptir máli.

Börn forðast foreldra

Í rannsókninni kom í ljós að um 1 af hverjum 4 börnum forðast foreldra sína þegar þeim líður illa vegna þess að foreldrarnir hundsa tilfinningalega vanlíðan barnanna, um 15% í viðbót streitast á móti foreldrum því þeir auka streitu barnanna.

Sterkasta vísbendingin

Sterkasta vísbendingin um möguleg óörugg tengsl á milli barna og foreldra þeirra er hvort foreldrarnir sjálfir hafi átt í óöruggum tengslum sem börn. Það góða hinsvegar er það er hægt að kenna og leiðbeina foreldrum um tengslamyndun.

Hver ræður hvernig til tekst

Samkvæmt eldri rannsóknum hafa bæði börnin og hinir fullorðnu áhrif á hvernig tenglamyndun á sér stað.  Barnið er gerandi  í sambandinu frá upphafi. Það hlýtur hinsvegar að vera á ábyrgð og er á valdi hins fullorðna að pæla í tengslunum, hvernig þau verða til og hvernig hægt er að styrkja þau. En líka að ofbjóða ekki barninu og oförva það. Tengslamyndun er dans þar sem báðir aðilar læra að lesa í hegðun hins, lesa í örsvipbrigði og svo framvegis.

Hvernig er hægt að stuðla að tengslamyndun?

En hvernig er hægt að stuðla að tengslamyndun?  Fyrst og fremst með því að Að vera vakandi fyrir þörfum barnsins og mæta þeim, (bæði tilfinningalegum og líkamlegum) að eiga í samskiptum við það, að ýta undir að barnið vilji eiga samskipti, með brosi, blíðu og breiðum faðmi.  Að vera með barninu í leik, að vera andlega nærverandi en ekki fjarverandi þegar verið er að sinna barni. Að staðfesta með líkamanum, yrtri sem óyrtri tjáningu að viðkomandi sjái barnið og skynji næveru þess.

Hlutverk leikskólans

Leikskólakennarar eiga að nýta sérfræðiþekkingu sína á leik og til dæmis rannsóknum og kenningum um tengslamyndun til að hjálpa börnum og foreldrum að mynda og strykja tengsl. Þeir eiga að gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviðinu og nýta hvert tækifæri. Eitt þeirra verkfæra sem leikskólakennarar geta beitt er uppeldisfræðileg skráning. Með henni er hægt að draga fram styrkleika barnsins, áhugasvið og fleira. Hún er leið til að hjálpa foreldrum sem og leikskólakennurum að sjá og skilja barnið.

_____________________________

Til að lesa meira er bent á skýrsluna hér að neðan en hún er samantekt á rannsóknum um tengslamyndun barna:

Sutton trust, baby bonds report

og greinina sem ég studdist við:

Byggt á greininni eftir Forty per cent of babies and toddlers missing out on crucial bond with parents, eftir Julia Corbett, birtist þann  20. mars-2014 í  DayNursery.com.uc

KD – apríl 2014

 

Tags: , , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar