Kristin Dýrfjörð

Afleiðingar ofþyngdar barna

Kristín Dýrfjörð skrifar um nýja danska rannsókn á ofþyngd barna og afleiðingar hennar.

Nýlega skrifaði ég færslu um mat og matarmenningu, þar fjallaði ég um umtalsverða aukningu á ofþyngd barna og lítillega um afleiðingar hennar. Nýlega (29. mars 2024) kom út skýrsla í Danmörku á vegum Rannsóknarstofnunar um velferð barna (VIVE) sem vakti athylgi mína. Skýrslan fjallar um neikvæð áhrif offitu og ofþyngdar á vellíðan, fjarvistir frá skóla og námsárangur hjá börnum í grunnskóla og unglingastigi. Þar kemur fram að ofþyngd á unglingastigi hefur áhrif á það hvernig nemendur velja framhaldsskólanám. Börn með ofþyngd eða offitu eru síður líkleg til að skrá sig í menntaskóla og líklegri til að fara í starfsnám eða jafnvel að skrá sig ekki í framhaldsskóla fyrir 18 ára aldur. Þá er ungt fólk með offitu eða í ofþyngd líklegri til að þurfa að þiggja félagslegar bætur við 21 árs aldur.

Þó svo að þessar niðurstöður séu danskar er fátt sem bendir til að sama eigi ekki við hér. Höfnundar lýsa meðal annars yfir að flestar rannsóknir um sama efni séu amerískar og telja mikilkvægt að Danir geri sjálfir rannsóknir. Það má telja líklegt að norrænar rannsóknir eigi einnig betur við hérlendis og séu yfirfæranlegri en amerískar rannsóknir. Það er lýðheilsumál að vinna með offitu barna, vegna þeirra eigin þroska og möguleika í framtíðinni. Það á ekkert barn að þurfa að vera á hliðarlínunni í lífinu, ekki að þora að mæta í skóla t.d. vegna eineltis sem það verður fyrir. Það á ekki að hafa áhrif á val þeirra um menntun og starfsvettvang.

Helstu niðurstöður skýrslunnar benda til neikvæðra afleiðinga fyrir börn með ofþyngd eða offitu, þó áhrifin séu almennt meiri fyrir börn með offitu miðað við börn sem eru aðeins of þung. Greinarmunur milli ofþyngdar og offitu er mikilvægur þar sem líkur á að börn sem eru of þung nái aftur eðlilegri þyngd eru meiri, til dæmis vegna hæðaraukningar. Börn með offitu hafa ekki sömu líkur og oft er þyngdarferill þeirra ákvarðaður snemma. Sem bendir til að það þurfi að grípa strax inn, vera með snemmtæka íhlutun sennilega allt frá leikskólaaldri.

Höfundar segja að þrátt fyrir rannsóknir bendi oft til þess að stúlkur séu í meiri hættu en drengir varðandi ýmsar afleiðingar, hafi þeir ekki fundið mikil merki um kerfisbundinn kynjamun. Drengir virðast þó síður líklegir til að taka próf ef þeir eru of feitir miðað við eðlilega þyngd, sem virðist ekki eiga við um stúlkur. Stúlkur virðast líklegri til að nýta sér heilbrigðisþjónustu þegar þær eru of þungar sem virðist ekki gilda um drengi.

Á það er bent að börn úr jaðarsettum hópum eru að jafnaði ekki meira útsettar vegna offitu en börn úr öðrum þjóðfélagshópum sem eiga við sama vanda að etja. Sem er afar áhugavert og í andstöðu við margar aðra þætti, þar sem félagsleg staða getur falið í sér ákveðna vörn.

Höfundar draga fram eftirfarandi lykilþætti sem afleiðingu fyrir dönsk börn og ungmenni:

  • Börn með ofþyngd eða offitu eru á bilinu 18-28% og 27-55% líklegri til að verða fyrir einelti í 4. bekk. Meðal barna með eðlilega þyngd upplifa 12% einelti í 4. bekk.
  • Börn með ofþyngd eða offitu fá 0.1-0.2 og 0.2-0.5 staðalfrávik lægri einkunnir á lokaprófi í 9. bekk.
  • Börn með ofþyngd eða offitu hafa 4-15% og 19-42% meiri fjarvistir úr skóla á 9. bekk. Börn með eðlilega þyngd hafa að meðaltali 6% fjarvistahlutfall, sem samsvarar 12 dögum, á 9. bekk.
  • Líkur á að vera ekki skráð í framhaldsskólanám, hvorki í menntaskóla né starfsnám, við 18 ára aldur er á bilinu 18-34% og 44-117% hærra fyrir börn með ofþyngd eða offitu. Meðal barna með eðlilega þyngd eru 6% ekki skráð í framhaldsskólanám við 18 ára aldur.
  • Börn með ofþyngd eða offitu eru 21-38% og 54-85%, líklegri til að þiggja félagslegar bætur við 21 árs aldur. Meðal barna með eðlilega þyngd fá 10% félagslegar bætur við 21 árs aldur.

Þeir sem hafa áhuga á skoða skýrsluna nánar er bent á að lesa hana hér:

Þessi umfjöllun er að mestu nokkuð orðrétt byggð á helstu niðurstöðum dönsku rannsóknarinnar. En áhugasömum er sérstaklega bent á að lesa fræðilega umfjöllun dönsku rannsóknarinnar þar sem finna má mikinn fróðleik.

Jafnframt er bent á að í dönskum fjölmiðlum er fjallað um efni hennar þessa daga, viðtal við sérfræðinga og höfunda.

Heimild:

Eriksen, T., Greve, J., Andersen, M. & and Jensen M.T. (2024). The Social Cost of Childhood Overweight and Obesity – Results on Health Care Usage, Well-Being, Education, and Labor Market Outcomes Until the Age of 21. VIVE. https://www.vive.dk/media/pure/ozoe58jv/24883137

AI mynd af leikskólamáltíð.

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar