Kristin Dýrfjörð

Matur sem minningar  

Kristín Dýrfjörð skrifar – hluti 2 matur og matarmenning

Matur er stór hluti af menningu okkar og minningum. Ef þú hugsar til fjölskyldustunda tengjast margar þeirra mat. Sem dæmi þá gúgglaði ég orðið afmæli og flestar myndir sem birtust voru með mat á. Ef ég flétti mínum fjölskyldualbúmum, stórafmælum, brúðkaupum, fermingum og já jólaboðum, þá er mat að finna einhverstaðar tengdan þessum viðburðum. Þegar við viljum gera vel við einhvern gerum við það með mat. Það er auðvitað ekkert skrítið í ljósi sögunnar. Matur er og var nauðsynlegur til að lifa af. Matur kveikir minningar og tilfinningar og getur stuðlað að samtali kynslóða. Matur getur verið lykill að slíku samtali og á þann hátt verið hluti af því að varðveita menningararf, fjölskyldusögur okkar og sögu okkar sem þjóðar.  

Samtal um mat við pabba

Dæmi um slíkt er samtal sem ég átti við pabba sem verður 89 ára á þessu ári (2024). Hann var að ræða við mig hvað hann hafi átt erfitt með að hafa yfir sér fólk og hugmyndir sem hann skynjar að hafi svipt hann valdi í eigin lífi. Á gamals aldri hugsar hann mikið til bernskunnar og þeirra reynslu sem hann telur hafa mótað sig. Hann velti upp tveimur minningum sem tengjast mat sem hann telur hafa haft mótandi áhrif, fyrri minningin er tengd grunnskólanum, þar sem þau börn sem ekki tóku inn lýsi sjálfviljug voru neydd til þess. Hann lýsti því þegar komið var með könnuna og tekið fyrir nefið á honum þangað til hann gat ekki annað en opnað munninn og dregið andann. Þá var lýsinu helt og tekið undir hökuna og höfðinu hallað og haldið þangað til hann var búinn að kyngja. ​ 

Seinna atvikið eða það fyrra, tengdist því þegar á stríðsárunum farið var með börn frá Siglufirði í dvöl á sveitarbæ í Fljótunum, einu sinni í viku kom strandbátur frá Siglufirði með hálfa tunnu af síld handa börnunum sem var soðin og þau fengu í matinn. Pabbi sagðist hafa verið nýbúinn að fá rauðan samfesting áður en hann fór í sveitina og á honum nokkrir vasar. Hann fann fljótt að það þýddi ekkert að malda í móinn yfir síldinni, svo hann þóttist borða hana, hræði henni á disknum og laumaðist til að stinga henni vasa. Einhverjar stelpur sáu hvað hann gerði og klöguðu. Refsingin var að sitja einn með matardiskinn í lítilli ljóslausri myrkvakompu undir stiganum á bænum, í hans minni marga tíma. Þessi upplifun varð til þess að hvorki ég né systkini mín þurftum að borða mat sem við ekki gátum hugsað okkur, sum okkar borða allt, önnur gera það ekki. Sum okkar taka lýsi ennþá á hverjum degi, önnur hafa aldrei getað það. 

Matarboð undirbúið

Hvað er í bakpokanum þínum? 

Markmið mitt með sögunni af pabba er að minna á að reynsla sem við verðum fyrir í uppeldinu hefur áhrif og markar okkur. ​Allir sem starfa í leikskólum hafa með sér reynslu frá eigin uppeldi og bernsku, t.d.  um hvernig matmálstímar eiga að fara fram, hvernig og hvað á að borða. ​Reynsla sem mótar viðhorf til þess sem fer fram við matarborð leikskóla.  

Þó svo við systkinin höfum ekki þurft að smakka mat, voru nokkrar grunnreglur um borðsiði heima hjá mér. Ekki smjatta, sötra eða tala með fullan munn. Bíða þar til röðin kom að okkur, ekki taka meira af matarfötum en svo að allir aðrir gætu líka fengið sér, aldrei að nota eigin áhöld í sameiginlega mat. Passa olnboga. Þvo hendur og munn fyrir og eftir mat. Kannski ekki mjög flókið en við sátum sjaldnast færri en átta við borðið svo mikilvægt að hafa einhvern sameiginlegan skilning á hvernig þessi athöfn, matartími átti að fara fram. Og auðvitað gildir það sama um leikskólann, fólkið þar þarf að ræða matartíma, framkvæmd og skilning. Það þarf að skoða hvernig þeirra eigið uppeldi mótar skoðanir og hvernig matartíma það telji vera góðan fyrir leikskólann, óháð þeirra eigin uppeldi. Sem dæmi var það víða að börn máttu ekki tala við matarborðið, þau áttu að sitja hljóð og hugsa um að tyggja.  

Kannast einhver við að segja eða söngla? 

Hendur undir borð,  

ekki segja orð,  

við þetta borð. 

Og þulubrotið tók ekki bara til þess að börn biðu eftir mat heldur líka til þess að það á ekki að vera gaspra við borðið. Fyrir löngu var ég sem leikskólastjóri beðin um að mæta í matartíma á einni deildinni og skoða. Starfsmanni þar fannst matartíminn ganga illa og hún var ósátt við þann sem sat með börnum á næsta borði. Ég fór á deildina og fylgdist með. Það var mjög ólíkt hvernig borðað var á borðunum tveimur. Á öðru þeirra voru allar samræður bannaðar, og ef börnin byrjuðu að tala voru þau áminnt um að hætta þessu masi og hugsa um að borða. Á hinu borðinu var hins vegar léttar samræður og hlegið. Starfsmaðurinn sem kvartaði, sat á þögla borðinu. Henni fannst allt of mikill tími fara í mas og þetta stressaði hana, hún hafði miklar áhyggjur af að vagninn væri ekki kominn fram í eldhús á sem bestum tíma.  

Þetta kenndi mér að matartíma verður að ræða alveg eins og allt annað starf og starfsaðferðir í leikskólum, hvernig við viljum hafa matartíma og hvers vegna. Í þessu tilfelli var ég algjörlega ósammála samstarfskonu minni sem kvartaði, mínar hugmyndir um matartíma voru einmitt léttir, rabbandi tímar.  

Einhver sem hefur það í  uppeldi sínu að matartímar eigi að snúast um að koma mat af disk í munn á sem skemmstum tíma, gæti álitið að þetta sé eina leiðin, ég er hins vegar nokkuð viss um að fræðin telji slíka matartíma ekki vera þá sem við ættum að styðja og vinna að. 

Í næsta hluta fjalla ég um mat sem hluta af upplifunum og líðan.  Hér má finna hluta 1

Spurningar:  

  • Hefur þú hugleitt hvort að það séu börn á deildinni eða í leikskólanum sem þið teljið að treysti á þá næringu sem þau fá þar? Telur þú matinn í leikskólanum góðan og hollan? Í hverju er hollustan fólgin?
  • Átt þú minningar tengdar mat? Eru slíkar minningar ræddar í þinni fjölskyldu? Ganga t.d. uppskriftir á milli kynslóða? 
  • Finnst þér að það eigi að vera regla að börn smakki allan mat?​ Hvers vegna – hvers vegna ekki?
  • Eiga börn almennt að klára matinn sinn, sérstaklega ef þau hafa skammtað sér sjálf? Hversvegna – hvers vegna ekki?
  • Hafið þið í leikskólanum rætt saman um hvernig matartími á að fara fram, hvert sé hlutverk starfsfólksins, hvort sem um fullorðinstýrða eða barnstýrða matmálstíma sé að ræða? 

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar