Kristin Dýrfjörð

Þegar matvæli eru notuð í leik og skapandi starf

Kristín Dýrfjörð skirfar 8.apríl 2024

Það hefur lengi truflað mig að sjá matvæli notuð sem leikefni í leikskólum. Ég hef rætt þetta í tímum við nema aðallega út frá siðferðilegu hliðinni. En sennileg hef ég ekki skrifað mikið. Árið 1994 var ég svo heppin að vera í Chicago í nokkra mánuði við nám og störf, þar heimótti ég meðal annars leikskóla í fátækrahverfi. Á þessum tíma voru hrísgrjónaker vinsæl í mörgum leikskólum, m.a. til að vinna með fjölþætta skynjun. Það var líka vinsælt að líma bæði baunir og pasta á blöð til að mála. Í leikskólanum sem ég heimsótti voru börn sem fengu máltíð dagsins þar, þau mættu ekki í leikskólann á köldum dögum því þau áttu ekki skó eða fatnað til að fara á milli húsa. Þarna var mikil og nístandi fátækt. Ég held að það hafi verið í tengslum við þessa heimsókn sem ég tók fyrst þátt í umræðu um matvæli sem væru notuð sem efniviður í leik og skapandi starf en ekki til neyslu. Ég man eftir leikskólakennara sem spurði hvernig er það réttlætanlegt að leika sér með efnivið sem gæti fætt heilar fjölskyldur í marga daga eða vikur, og henda honum svo?

Í umræðum um leik og skapandi starf með börnum er mikilvægt að huga að þeim efnum og gögnum sem notuð eru. Notkun matvæla eins og hrísgrjóna og bauna í slíkum verkefnum getur virkað saklaust og skemmtilegt við fyrstu sýn, en felur samtímis í sér siðferðislegar spurningar sem starfsfólk leikskóla þarf að svara. Umræðan þarf að snúast virðingu og meðvitund um mismunandi aðstæður barna um allan heim. Hún þarf að snúast um sjálfbærni.

  • Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að matvæli eru grundvallarþörf. Í mörgum samfélögum er aðgangur að nægum og næringarríkum mat ekki sjálfgefinn. Samkvæmt Alþjóða matvælaáætluninni (WFP) búa yfir 821 milljón manns, eða um einn af hverjum níu íbúum jarðar, við hungur. Þessar tölur benda til þess að matvælaskortur sé alvarlegt vandamál sem snertir milljónir barna um allan heim. Þegar matvæli eru notuð í leik eða sköpun, án þess að borða þau, getur það sent skilaboð um að mat sé auðlind sem má sóa án afleiðinga, sem er einfaldlega ekki rétt.
  • Í öðru lagi getur notkun matvæla í leik eða skapandi starf með börnum endurspeglað og jafnvel ýtt undir ofneyslu og sóun í samfélögum þar sem matvælaskortur er ekki stórt vandamál. Samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), fer um það bil einn þriðji af öllum mat sem framleiddur er í heiminum fyrir manneldi til spillis. Sóun er ekki aðeins umhverfislega skaðleg heldur krefst hún umræðu um siðferðileg álitamál sem snúa m.a. að réttlæti.
  • Í þriðja lagi, með því að nota matvæli sem leikefni er verið að draga úr og minnka virðingu barna fyrir mat sem nauðsynlegri auðlind. Það er mikilvægt að kenna börnum að meta mat og skilja gildi hans, ekki aðeins sem næringu heldur einnig í stærra samhengi umhverfis og samfélags. Þegar börn læra að sjá mat sem eitthvað sem má nota í leik án umhugsunar um afleiðingarnar, er hætta á að þau muni ekki þróa með sér þá virðingu og þakklæti sem nauðsynleg er fyrir sjálfbært samfélag.

Þessi póstur er fyrst og fremst hugsaður til að vekja fólk til umhugsunar áður en það hellir hrísgrjónum og baunum í kerin, eða notar mat án þess að pæla í hversu mikið hefur verið haft fyrir að framleiða hann. Að matur er takmörkuð auðlind. Sérstaklega núna þegar við sjáum að matarskortur og hungur steðjar að gríðarlega mörgum börnum um allan heim. Ég hef líka heyrt því fleygt að kannski sé betra að nota t.d. útrunnin grjón á þennan hátt í stað þess að henda þeim, en þá stendur eftir, upplifun lítilla barna sem skilja ekki og vita ekki um síðasta neysludag. En skynja virðingu eða virðingarleysi fyrir notkun á matvælum.

Að lokum má má velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að ekki notað annan og betri efnivið.

Börn að nota mat á siðferðilegan hátt, að undirbúa snakk yrir leikfélaga.
Börn að nota mat á siðferðilega. Þau eru að undirbúa snakk fyrir leikfélaga. Mynd AI

Heimildir:

Alþjóða matvælaáætlunin (WFP). (n.d.). Hunger Statistics. WFP.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). (2019). The State of Food Security and Nutrition in the World. FAO.

Tags: , ,

Sorry, the comment form is closed at this time.

Kristín Dýrfjörð er eigandi og ábyrgðarmaður síðunnar